Námsmat

Gert er ráð fyrir að þrenns konar námsmat sé notað með verkefnunum: sjálfsmat nemenda, mat á lausnum verkefna og huglægt mat kennara. Kennarar velja þá gerð af námsmati sem hentar þeirra kennsluaðferðum en mælt er með því að fjölbreytni sé höfð að leiðarljósi. Ekkert er því til fyrirstöðu að fleiri en ein námsmatsaðferð sé notuð með hverju verkefni.

Hugmyndafræði námsefnisins er sú að nemendur séu ávallt meðvitaðir um markmið sín. Öllum verkefnum fylgja markmið sem ætlast er til að kennarinn upplýsi nemendur um. Þau byggjast upp á tveimur atriðum: hvað þeir muni læra og hvernig þeir geti nýtt þá þekkingu. Sé sjálfsmat notað má láta nemendur fá töflu þegar þeir hafa lokið við verkefnið. Þar merkja þeir við hvort þeir hafa náð þeim markmiðum sem þeir lögðu upp með. Einnig er hægt að nota sömu aðferð við jafningjamat.

Sum verkefni henta vel til þess að kennari fari yfir úrlausnina og meti þannig árangur nemenda, t.d. myndagátan og orðaþrautin í 5. verkefni. Nemendur geta einnig skiptst á verkefnum og farið yfir hver hjá öðrum.

Sé huglægt mat kennara notað er best að gera það á markvissan máta, t.d. með því að merkja við í töflu ýmsa hæfniþætti, t.d. hvort nemandi taki virkan þátt í kennslustundinni, sýni námsefninu áhuga eða vinni vel í hóp.

Hér að neðan eru tillögur að töflum sem hægt er að nota við sjálfsmat, jafningjamat eða huglægt mat kennara. Töflurnar fyrir sjálfs- og jafningjamat er t.d. hægt að nota þannig að kennari geri grein fyrir þeim atriðum sem á að meta og nemendur skrifa þau í töfluna. Eins getur kennari skrifað matsatriðin í töflu og fjölritað hana.

Skjöl fyrir námsmat

Smellið á textatengilinn til þess að sækja skjalið.

Tafla fyrir sjálfsmat/jafningjamat (pdf 0.3 MB)

Sýnidæmi um sjálfsmat/jafningjamat (pdf 0.3 MB)

Tafla fyrir huglægt mat kennara (pdf 0.3 MB)