Námsefni

Aðalmarkmið verkefnisins er að útbúa námsefni fyrir 3., 5. og 7. bekk grunnskólanna. Námsefni fyrir 3. bekk hefur þegar verið gefið út og er að finna undir valmyndinni hér til hægri. Unnið er að gerð námsefnis fyrir 5. og 7. bekk.

Námsefnið er í grunninn byggt upp af sex verkefnum fyrir hverja bekkjardeild. Saman miða verkefnin að því að ná þeim markmiðum sem aldurshópnum hafa verið sett. Í kennsluleiðbeiningunum er leitast við að að hafa tillögur að því hvernig gera megi verkefnin flóknari eða einfaldari svo hægt sé að aðlaga þau að getu nemenda og markmiðum kennslunnar hverju sinni.

Frá upphafi stóð til að útbúa námsefni á rafrænu formi og eru því nokkur verkefnanna ætluð til notkunar í tölvum. Verkefnin eru þó þannig úr garði gerð að prentvæn útgáfa fylgir einnig þeirri gagnvirku svo ekki er nauðsynlegt að vinna þau í tölvu. Þannig er tryggt að hægt sé að nota námsefnið hver sem tölvukostur skólanna er.

Með sumum verkefnum fylgja einnig tillögur að aukaverkefnum sem eru ætluð sem ítarefni. Þessi verkefni eru af ýmsu tagi og miða að því að auka fjölbreytni í námsaðstæðum nemenda, t.d. með verkefnum sem fara fram utan dyra eða í samstarfi við verklegar greinar. Verkefnin gera kennurum kleift að aðlaga námsefnið að sínum þörfum og veita þeim aukið svigrúm til að breyta skipulagi námsins eins og þeim hentar. Fyrst í stað verður þó aðaláhersla lögð á að gefa út grunnverkefni fyrir hverja bekkjardeild, en tillögum að aukaverkefnum mun fjölga í kjölfarið.

Fornleifafræðingarnir Urður og Steingrímur aðstoða nemendur við að leysa ýmis verkefni